Fróðleikur

Ull er gull

Það liggja fjölmörg tækifæri í nýtingu íslensku ullarinnar. Ístex leggur sig fram um að skapa vettvang fyrir þessi tækifæri. Þetta eru margslungin verkefni sem eru unnin í samstarfi við bændur, hönnuði, innlenda og erlenda framleiðendur. Ístex er opið fyrir hugmyndum og frekara samstarfi.

Hér má finna upplýsingar og skemmtilegan fróðleik um íslensku sauðkindina, ull hennar og starfsemi Ístex. 

Ullarvinnsla og Ístex

Starfsemi Ístex byggir á íslenskri ull. Í þessu kynningarmyndbandi er farið yfir árið hjá íslensku sauðfé. Sýnt er frá rúningi og flokkun ullar hjá bónda. Þá er stiklað á stóru um ullarvinnslu. Sýnt er frá ullarþvottastöð Ístex á Blönduósi og spunaverksmiðju í Mosfellsbæ.

Íslensk ullarsæng

Lopidraumur er ný vörulína hjá Ístex. Fyrstu vörur línunnar voru sængurnar Embla og Iðunn. Hér má sjá stutt myndband um íslensku ullarsængurnar.

Ull er heilnæmur kostur fyrir svefninn. Fjaðurmagn og loftfylling þelháranna gera vörur úr íslenskri ull léttar og hlýjar. Toghárin veita styrk. Eiginleikar íslensku ullarinnar njóta sín vel í vörum tengdum svefni. 

Ull hefur góða öndunareiginleika frá náttúrunnar hendi. Hún er það náttúrulega efni sem getur dregið í sig mesta magn raka og hleypir honum einnig auðveldlega frá sér. Ull hefur góða hita- og rakastýringu. Hún bregst við breytingum á hitastigi þess sem notar hana og leggur þannig grunninn að góðum svefni. 

Íslenska ullin

Ull af íslensku sauðfé skiptist í þel og tog. Aðeins örfá sauðfjárkyn af þeim hundruðum sem til eru í heiminum í dag eru með slíka tveggja hára uppbyggingu. 

Þel íslensku ullarinnar er fínt, mjúkt og óreglulega liðað. Hárin falla því ekki þétt hvert að öðru sem gefur ullinni fyllingu. Þelið heldur í sér miklu lofti, hefur góða öndunareiginleika, einangrar vel og er létt í sér. 

Tog er lengra og grófara en þelið. Það er slétt og vatnsfráhrindandi. Togið myndar verndarhjúp um þelið og ver féið fyrir vindi og veðrum. Toghárin gefa íslensku ullinni styrk og strúktúr. 

Íslenska sauðkindin

Íslenska sauðkindin hefur fylgt Íslendingum frá landnámi. Stofninn hefur haldist einangraður í gegnum aldirnar og er einstakur.

Á Íslandi eru 400-500 þúsund fjár og meðalbú með 200-300 kindur. Mikið og öflugt eftirlit er með velferð sauðfjár á Íslandi. Féið gengur ekki auðveldlega úr reyfinu og því er rúningur mikilvægur hluti af velferð þeirra. Flestir velja að rýja tvisvar á ári, að hausti og vori.

Íslenska sauðkindin heitir Ovis aries borealis á latínu.

Innskráning