Lopi

Bréf til ullarframleiðenda

 

 

Mosfellsbæ, 14. nóvember 2014

 

Til ullarframleiðenda

 

Svo sem fram hefur komið hafa þrír lykilstarfsmenn Ístex sem eiga um þriðjung hlutafjár félagsins óskað eftir að selja sína hluti í félaginu.

 

Það er mat stjórnar Ístex að það þjóni best markmiðum og framtíðarhagsmunum félagsins að ullarframleiðendur eignist stærri hluta af hlutafé þess.

 

Til að greiða fyrir kaupum ullarframleiðenda á hlutafé ákvað hluthafafundur Ístex sem haldinn var 12. nóvember sl. að bjóða þeim 15% álag á almennt ullarverð. Skilyrði fyrir álagi er að viðkomandi geri viðskiptasamning til fjögurra ára við Ístex og skuldbindi sig til að kaupa hlutafé fyrir 27% af andvirði ullarinnar (án beingreiðslna). Viðskiptasamningurinn fylgir hér með ásamt þeim verðskrám sem í gildi eru. Vakin er athygli á að almennt verð samkvæmt verðskrá A er sambærilegt við verð fyrra árs, enda litlar verðbreytingar milli ára á ullarmörkuðum. Breytingar á verðskrá felast í að lögð er aukin áhersla á þá flokka ullar sem Ístex nýtir í sína framleiðslu.

 

Ístex hf. er í góðri stöðu. Hagnaður hefur verið af rekstri óslitið frá 2009. Sá hagnaður hefur að mestu runnið til niðurgreiðslu skulda og til fjárfestinga í félaginu sjálfu s.s. endurnýjunar tækja og endurbóta á húsnæði. Langtímaskuldir eru um 100  m. kr. og eiginfjárhlutfall 61,5%. Félagið hefur greitt 20% arð af nafnvirði hlutafjár frá 2010 – 2013, um 12 m. kr. árlega. Rekstrarhorfur nýhafins reikningsárs eru góðar.

 

Unnt er að ganga frá viðskiptasamningi við Ístex með tvennum hætti: Annars vegar með því að undirrita meðfylgjandi samning og senda til Ístex sem þá staðfestir samninginn og sendir til baka. Einfaldara og æskilegra er að ullarframleiðandi gangi frá samningnum með rafrænum hætti. Það gerir hann með því að skrá sig inn í Bændatorgið (torg.bondi.is) og staðfesta samninginn þar. Þar eru einnig upplýsingar um verðlista o.fl. Komi upp vandamál við staðfestingu samnings má leita til skrifstofu Ístex í síma 566 6300.

 

Það er von stjórnar Ístex að sem flestir ullarframleiðendur sjái sér fært að taka þátt í þeim hlutafjárkaupum sem boðin eru.

 

Nánari upplýsingar veita stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda og stjórn Ístex, en hana skipa Ari Teitsson s. 464 3159/864 8500, Gunnar Þórarinsson s. 865 8203, Hulda Hákonardóttir s. 618 4418, Jón Haraldsson s. 895 4610 og Sigríður Jónsdóttir s. 822 8421.

                                                           Virðingarfyllst

                                                           F.h. stjórnar Ístex hf.

 

                                                           ____________________________

                                                           Ari Teitsson stjórnarformaður

 

 

Verðskrár A og B 2017

 

 

 

icelandic wool
Woolmark
www.istex.is / istex@istex.is / Sími 566 6300 / Fax 566 7330 / © 2010 lopi